Nýnorska
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Nýnorska (á norsku: nynorsk) er annað af tveimur opinberum ritunarformum norsku. Um það bil 10-15% Norðmanna hafa valið að nota þetta ritmál. Nýnorska er í eiginlegri merkingu tilbúið tungumál þar sem það er einungis ritmál og er skapað úr ýmsum mállýskum einkum frá Vestur-Noregi og með mikilli hliðsjón af fornnorrænu. Mörgum sem hafa valið að nota hitt málaformið, Bókmál, finnst nýnorskan vera of íhaldssöm og "sveitaleg".
Danska var eina opinbera ritmálið í Noregi fram til 1890 þegar Stortinget (þing Norðmanna) ákvað að gera bæði nýnorsku (sem þá var kallað landsmål) og bókmál (sem þá var kallað riksmål) að opinberum málaformum.
Það var hinn sjálfmenntaði málfræðingur Ivar Aasen sem fremur öðrum skapaði nýnorsku í kringum miðja 19. öld. Í takt við þjóðernisvakningu þess tíma óskaði hann sér að til væri hreinna mál og líkara bæði talmáli sveitanna og fornnorrænu en þeirri dönsku sem var eina opinbera ritmálið í Noregi á þessum tíma. Aasen ferðaðist um Noreg á áratugunum 1840-1850 til að viða að sér efni til að skapa nýtt ritmál. Hann valdi að byggja það að mestu á mállýskum frá Vestur-Noregi þar sem hann taldi þær vera minna mengaðar af dönskum áhrifum.
Baráttan fyrri nýnorskunni var og er enn oft mjög heit og nátengd þjóðerninsímynd Norðmanna. Notkun nýnorskunar jókst stöðugt frá því hún var sköpuð fram að seinni heimstyrjöld. Þá valdi um þriðjungur nemenda að nota hana í stað bókmáls. Eftir það hefur hún hins vegar átt í vök að verjast.
Nýnorska kemur íslenskumælandi oft kunnuglega fyrir sjónir eins og sjá má af þessu dæmi:
- Bókmál: Jeg kommer fra Norge.
- Nýnorska: Eg kjem frå Noreg.
- Íslenska: Ég kem frá Noregi.
[breyta] Tengt efni
- Forskrift om målvedtak i kommunar og fylkeskommunar
- Norsk netorðabók
- nynorsk.no - nyheter om nynorsk
- Noregs Mållag
- Norsk Målungdom